| 
Innskráning

Lagaleit


Grein um Tvíburann PDF Prenta Tölvupóstur

Viðtalið við Bubba hér að neðan er fengin að láni frá Morgunblaðinu og birtist það í Morgunblaðinu 7 október 2004.

Bubbi leitar að kjarnanum
Bubbi Morthens hefur í nógu að snúast um þessar mundir eins og endranær; Egó annar ekki eftirspurn, kvikmynd um hann verður forsýnd í dag og einnig kemur út í dag ný plata, Tvíburinn, sem er persónulegasta verk hans í áraraðir. Hann sagði Árna Matthíassyni frá tilurð Tvíburans og glímunni við efann sem birtist á honum.


Þó að Bubbi Morthens hafi það fyrir sið að breyta um kúrs reglulega, að vera sífellt að breyta um stíl og stefnu án þess þó að glata sérkennum sínum, á Tvíburinn eflaust eftir að koma mörgum í opna skjöldu, því á henni bregður Bubbi fyrir sig góðlátlegri bluegrassstemningu aukinheldur sem meirihluti textanna er trúarlegur sem speglast ekki síst í nafni plötunnar, Tvíburinn, sem vísar í Tómas, tvíburabróður Krists. Aðspurður hvort hann telji ekki að platan eigi eftir að koma fólki á óvart hlær Bubbi við og svarar: „Ég ætla bara rétt að vona það.“
Hljóðfæraskipan á plötu er einföld, því auk gítars, munnhörpu og raddar Bubba koma helst við sögu þeir Vignir Ólafsson sem leikur á banjó, Magnús Einarsson á mandólín og Dan Cassidy á fiðlu, en Jón Ólafsson leikur á píanó í einu lagi og Jakob Frímann Magnússon á indverskt orgel.

Leit að kjarnanum
Bubbi segir að þegar hann hafi verið langt kominn með plötuna hafi honum orðið ljóst að hún myndi koma fólki á óvart. „Ég leyfði nokkrum að heyra plötuna sem höfðu afskrifað mig og þeir sögðu velkominn aftur, þetta er það besta sem þú hefur gert. Það benti til þess að hún kæmi ekki bara fólki á óvart heldur og að hún hreyfði öðruvísi við fólki en aðrar plötur sem ég hef gert,“ segir Bubbi en viðurkennir þó að fyrir honum hafi platan ekki verið annað en partur af leit hans að kjarnanum í tónlistinni. Hann hafi markvisst verið að losa tónlistina við allan óþarfa til að láta hana hljóma sem tærasta og trúarlegir textar á Tvíburanum séu liður í því.
„Trúarsöngvar eru upprunalegasta tónlistarformið og því ekki nema eðlilegt að þeir séu burður á plötunni. Ég vildi þó ekki að á plötunni væru einungis trúarlegir textar, vildi líka hafa texta um hafið og vinnutitill á plötunni var „Tvíburinn og hafið“,“ segir Bubbi en málið er ekki svo einfalt því þegar hlustað er á plötuna heyrist að sumir textar sem eru veraldlegir við fyrstu hlustun fela í sér trúarboðskap þegar betur er að gáð. Bubbi tekur undir þetta og segir að sín upplifun af hafinu sé að vissu leyti trúarleg en einnig sé kjarni sumra laganna, eins og til að mynda „Fær aldrei nóg“ sem fjallar um græðgina og upphafslagsins, „Íslenskir sjómenn in memoriam“, trúarlegur.

Nálgast trúna
„„Íslenskir sjómenn in memoriam“ segir frá því er skip strandaði í Grindavík og einn maður náði að binda sig fastan við mastrið á meðan hinir sópuðust fyrir borð. Þyrlusveit af Keflavíkurflugvelli náði að bjarga skipverjanum þar sem holskeflurnar gengu yfir hann og hvað var það annað en kraftaverk, trúarleg upplifun, að verða vitni að því.“
Á undanförnum árum hefur Bubbi smám saman nálgast trúna eftir að hafa verið yfirlýstur trúleysingi á árum áður. Þessa sér helst stað í textum hans, ekki síst á Tvíburanum, en hann segist ekki vilja predika, sé ekki gefinn fyrir að hrópa á torgum að hann trúið á Jesú Krist og heilagan anda og að allra þeirra sem ekki geri það bíði helvítisvist – hver og einn eigi að hafa sína trú fyrir sig og vera umburðarlyndur.
Spurður um aðdraganda þeirrar trúarvakningar sem komið hefur yfir hann á undanförnum árum segist Bubbi lengi hafa velt fyrir sér trúmálum og til að mynda haft dálæti á Nýja testamentinu.

Ekki trúarljóð eða trúarleg játning
„Brilljant bók,“ segir hann ákveðinn. „Það eru þó atriði í henni sem vafist hafa fyrir mér og ýtt undir efann. Á síðustu árum hef ég svo verið að pæla í Dauðahafshandritunum [handritum og handritsbútum sem fundust við Dauðahafið 1947 og 1952] og komst svo í tæri við Tómasarguðspjallið sem er að flestra mati elsta heimildin sem til er um Jesú Krist. Þegar ég las það stóð svo manneskjan Jesú Kristur ljóslifandi fyrir mér, ekki sem upphafin guðleg vera heldur sem hver annar maður sem ég hefði getað hitt á förnum vegi og fyrir vikið varð boðskapur hans mér mjög auðskiljanlegu og skýr.“
Bubbi segir að þessi upplifun hafi orðið honum kveikja að lagasmíðum, en hann hafi ákveðið að semja ekki lög sem væru trúarljóð eða trúarleg játning. Hann segist vera að yrkja við Tómasarguðspjallið, en flétti saman við það atriðum sem koma ekki fyrir þar eins og krossfestingunni, setji sig í spor Júdasar sem var valinn til að gegna hlutverki sínu og greinilegt að Guð var með í spilinu, lætur Maríu Guðsmóður rifja upp æsku Krists þegar hann lék sér með smíðadót Jósefs og þar fram eftir götunum.
Bubbi hefur verið ófeiminn við að benda á fyrirmyndir sínar í tónlist, að benda á þá tónlistarmenn sem mest áhrif hafa haft á hann sem lagasmið, en hann segist líka eiga sér fyrirmyndir í textasmíðinni, ekki síst nú þegar hann sé að fást við trúarlegt viðfangsefni.

Inntakið ætti ekki að koma á óvart
„Það má nefna Nick Cave, sem er gífurlegur biblíuspekúlant og notað mikið af tilvitnunum og tilvísunum í Biblíuna, en svo líka Bob Dylan og Leonard Cohen. Þetta hefur allt haft áhrif á mig, þó að ég viti ekki um neinn poppara sem samið hefur beint með tilvitnun í Tómasarguðspjallið eins og ég geri á Tvíburanum.“
Trúarleg upplifun er jafnan persónuleg og þegar sagt er frá henni eru menn að gefa færi á sér, opna gáttir hjartans. Það má og halda því fram að Bubbi hafi ekki gefið eins mikið af sér á plötu síðan Kona kom út á sínum tíma. Hann tekur og undir það að Tvíburinn sé persónulegri plata en flestar þær sem hann hefur áður gefið út, en segir að inntak hennar ætti ekki að koma þeim á óvart sem þekkt hafa til hans í gegnum tíðina.
„Allir þessi karlar sem ég hef haldið mest upp á í gegnum árin, Woody Guthrie, Leadbelly, Johnny Cash, Dylan, eru sprottnir úr trúarlegri hefð og það hlaut að síast inn í mann að hlusta á þá. Ég hélt alltaf að ég væri heiðingi, en var eins og Páll: því hærra sem ég hafði um það að ég væri heiðingi því meiri efi bærðist með mér og óöryggi. Ég var alltaf að glíma við efann og er það reyndar enn, en ég er mun sáttari í dag, finnst ég kominn nær einhverri niðurstöðu.
“ Tónlistin á Tvíburanum er blágresisleg, hljóðfæraskipan einföld og mikið lagt upp úr að hafa hlutina náttúrulega og lifandi að því Bubbi segir, en platan var tekin upp og hljóðblönduð á tuttugu tímum, „ótrúlegt en satt,“ segir Bubbi. „Ég vildi hafa þetta einfalt og blátt áfram. Við létum fyrstu tökur yfirleitt standa eins og þær voru og vorum ekki að vinna mikið í þeim eftirá þó að eflaust hefði mátt laga hitt og þetta,“ segir Bubbi, en þó að upptökur hafi verið gerðar á mettíma tók það hann öllu lengri tíma að setja plötuna saman, að raða á hana lögunum, velja og hafna. „Mér fannst trúarlegi hlutinn orðinn of stór og ekki bara það heldur var platan ekki nógu heilsteypt. Ég tók upp því tvö lög í viðbót á hálftíma og henti öðrum út og þá kom heildarsvipurinn sem ég var að leita eftir.“
Morgunblaðið/Viðtal Árni Matthíasson / mynd:Þorkell


Tvíburinn kemur út í dag.
Heimildarmynd um Bubba Morthens, Blindsker, verður forsýnd í kvöld en fer í almennar sýningar á morgun í Smárabíói, Regnboganum og Bíóborginni Akureyri.


 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK?