Utangarðsmenn |
![]() |
![]() |
![]() |
![]() Kópavogur 12 apríl 1980
- Fljótlega eftir að Bubbi hóf upptökur urðu þeir bræður tíðir gestir í hljóðverinu og léku með honum inn á nokkur laganna. Hugmynd Pollock bræðranna um að stofna hljómsveit var framkvæmd með auglýsingu í einu dagblaðanna snemma árs 1980 þar sem óskað var eftir trommu- og bassaleikara. - Nokkru síðar mætti Maggi (Magnús Stefánsson) svo með Rúnar Erlingsson með sér á æfingu sem bassaleikara en þeir félagar höfðu báðir búið á Raufarhöfn. Bubbi vildi nota þá til að endurvinna grunna að laginu Færeyjarblús. Mikki bætti svo gítarspili ofan á grunnana og við það breyttist útsetnings lagsins og rokkaðist það verulega. Bubbi söng síðan inn nýjan texta eftir Gunnar Ægisson nokkrum dögum seinna og negldi þar með síðasta naglann í lagið Jón pönkari, sem var fyrsta lagið sem sett var á plötu eftir hljómsveitina Utangarðsmenn. Færeyjarblúsinn stóð hins vegar eftir óbreyttur, en Jón pönkari var fæddur. - En nafn sveitarinnar kemur frá bók Colin Wilson, The Outsiders. Þegar Mike spurði Bubba hvernig hann myndi þýða The Outsiders svaraði Bubbi strax Utangarðmenn og nafnið var fleygt.
![]() Utangarðmenn / Mynd: FÞH - Það kom fáum á óvart sem heyrt höfðu í Utangarðsmönnum þegar þeim var boðið að hita upp fyrir bresku sveitina Clash er hún hélt tónleika í Laugardalshöll 21. júní 1980, tæpri viku eftir að Ísbjarnarblúsinn, fyrsta sólóplata Bubba kom út. Útgefendur voru heldur ekki seinir á sér og Steinar hf undirritaði samning við sveitina og Bubba um líkt leyti. Utangarðsmenn hófu þeysireið um landið þvert og endilangt við takmarkaða hrifningu landsbyggðarinnar. Tónleikum sveitarinnar var misvel tekið, enda fólk ekki vant að fá fimm gargandi villirokkara í heimsókn í settleg félagsheimilin. Smám saman vann þó sveitin á.
Fyrsta afurð Utangarðsmanna kom á markað þann 1. október 1980. Þetta var smáskífan Ha-ha-ha (Rækju-Reggae) sem innihélt tvær útgáfur titillagsins auk laganna 13-16 og Miðnesheiði. Bandið var þá þegar orðið leiðandi fyrir þá rokkbyltingu sem skollin var á landið. Utangarðsmenn voru fimm ungir, reiðir menn sem ekkert gáfu eftir, málamiðlun var ekki til í orðabókinni. Tónlist sveitarinnar var rokk með öllum þeim krafti og útgeislun sem fylgt gat þeirri tónlist árið 1980, textarnir hápólitískir þar sem örvum var skotið í allar áttir. Þetta ásamt því að Utangarðmenn voru vel spilandi band lagði grunninn að vinsældum sveitarinnar. Síðar sögðu þeir frá því að meðan sveitin starfaði hafði hún sjaldnast æfingarhúsnæði, tónleikar sveitarinnar voru þeirra æfingar og oft hafði sveitin varla prufukeyrt nýtt lag saman þegar þeir fluttu það á tónleikum. ![]() Danny og Bubbi við upptökur á Geislavirkir Sveitin lét sér þetta í léttu rúmi liggja og hélt sínu striki að spila hvar sem færi gafst og var reyndar þegar þetta gerðist í miðri þeysireyð um landið, og nú með öllu betri árangri en í fyrra skiptið hvað aðsókn varðaði. Utangarðsmenn drógu gjarnan með sér sér yngri og efnisminni sveitir sem upphitunarbönd. Þannig voru þau ófá nýliðapönk- og rokkböndin sem fengu tækifæri gegnum þann kraft sem fylgdi sveitinni. Bubbi var fljótlega gerður að persónugerfingi rokkbylgjunnar og fyrirliða hljómsveitarinnar af blaðapressunni og dreginn fram í sviðsljósið sem stærsta rokkgoð sögunnar, þrátt fyrir yfirlýsingar hljómsveitarmeðlima þess efnis að þar á bæ væru þeir fimm einstaklingarnir sem sveitina skipuðu og allri stéttarskiptingu hafnað innan sveitarinnar og þar stæði enginn einn öðrum framar. Vorið 1981 kom svo út stuttplatan 45 prm sem var sex laga plata. Sú var allfrábrugðin fyrri plötum og munar þar mestu að rokkið er harðara, laglínan ekki eins auðgrípanleg og á fyrri verkum sveitarinnar, hlutur Bubba í textagerðinni mun minni en áður hafði verið auk þess sem Mike Pollock kemur oftar fyrir í hlutverki aðalsöngvara. Um líkt leyti og platan kom í hillur verslana ákvað sveitin að halda í tónleikaferð um Evrópu og var flogið til Rotterdam þar sem ferðin var undirbúin frekar, síðan keyrt og spilað í Hollandi og Þýskalandi, þaðan var farið til Svíþjóðar þar sem meðal annars voru hljóðritaðir tónleikar sem síðar komu út á plötunni Utangarðsmenn árið 1994. Þar í landi var líka gefin út ensk útgáfa plötunnar 45 rpm sem er frábrugðin þeirri íslensku að því leiti að allir textar plötunnar eru á ensku og lagavalið lítillega annað. Reyndar voru flestöll lög Utangarðsmanna einnig sungin inn á ensku þegar bandið var við hljóðritanir þó svo fæst af þeim hafi verið gefin út. En þó var á sínum tíma sett saman ensk útgáfa af plötunni Geislavirkir með hugsanlega útgáfu erlendis í huga, en útgáfufyrirtæki sveitarinnar, Steinar hf, var á þessum tíma að kynna bæði Mezzoforte og diskótvíeykið You & I, sem hér heima var þekkt sem Þú og ég, á erlendum mörkuðum. Aldrei varð þó af útgáfu Geislavirkra Utangarðsmanna á ensku.
Meðan á áður nefndri Evrópuferð sveitarinnar stóð gengu þær sögur ljósum logum að sveitin væri að leggja upp laupana og þótti mörgum það sannað þegar sveitin kom heim fyrr en ætlað var. Í júlí kom svo á markað önnur sólóplata Bubba, Plágan, þar sem flestir meðlima hljómsveitarinnar koma við sögu, en ekki allir. Útgáfa hennar ýfði enn betur upp orðróminn um að andlát sveitarinnar væri í sjónmáli og við bættust sögur þess efnis að innan Utangarðsmanna væri djúpstæður ágreiningur vegna pólitískra texta Bubba. Meðlimirnir reyndu að bera þessar sögur til baka bæði með yfirlýsingum og blaðaviðtölum. Máli sínu til stuðnings efndi sveitin til heljartónleika í Háskólabíói þann 15. ágúst 1981. Þeir tónleikar reyndust þó svanasöngur hljómsveitarinnar Utangarðsmanna næstu 20 árin eða svo, og eins og meðlimir hennar sögðu síðar, Sveitin lognaðist ekki útaf, hún sprakk í loft upp.
![]() Á Akureyri árið 2000 Utangarðmenn ársbyrjun 1980 - ágúst 1981, & sumarið 2000 og 2006 Bubbi Morthens: Söngur Mike Pollock: Gítar Daniel Pollock: Gítar Rúnar Erlingsson: Bassi Magnús Stefánsson: Trommur
Útgáfuskrá Smáskífur:
Hljóðversplötur Utangarðsmanna Tónleikaplötur Utangarðsmanna Safnplötur Utangarðsmanna Kvikmyndatónlist með áður óútgefnu efni Utangarðsmanna HVS / DVD með Utangarðsmönnum Aðrar plötur með áður óútgefnu efni Utangarðsmanna Samantekt, copyright: Bárður Örn Bárðarson |
Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK?