| 
Innskrßning

Lagaleit


Grein um Konu PDF Prenta T÷lvupˇstur

Plata Bubba Morthens Kona gæti betur en aðrar plötur sem hér hafa komið út borið heitið Ástarjátning. Fáir íslenskir karlmenn hafa leyft sér að vera jafn einlægir og opinskáir um ástarmál sín og rómantískar hneigðir sem Bubbi. Platan Kona er dagbók manns, sem misst hefur ástina sína og þráir aftur.
(Þjóðviljinn 13. júlí 1985)

Árið 1984 er einskonar vendipunktur í sögu Konu, þó platan hafi ekki verið tekin upp þá. Árið einkennist meira og minna af uppgjöri og skilnaði Bubba við menn og málefni. Deilur hans við útgáfufyrirtæki Steinars Bergs Ísleifssonar, Steina, og endalok þess samstarfs komst á síður dagblaðanna, hljómsveitin Egó lagði upp laupana, eiturlyfjaneysla Bubba tók sinn toll og samband hans við Ingu Sólveigu konu hans var í molum og lauk um líkt leyti og hún hélt til náms í Bandaríkjunum snemma árs 1984. Bubbi gaf stórar yfirlýsingar og sagðist ætla að leita fyrir sér utan landsteinanna, kvaddi með blaðaviðtölum og ítrekuðum kveðjutónleikum og hélt á vit frægðar og frama í Bandaríkjunum.

Ego tók upp síðustu plötu sína í byrjun mars. Platan var gefin út 25. apríl án titils, en hafði vinnuheitið Bless á meðan á upptökum stóð, enda var hljómsveitin að kveðja útgefanda og áheyrendur. Ný spor, sólóplata Bubba, kom svo út 1. maí. Báðar plöturnar fengu slæma útreið hjá gagnrýnendum, nokkuð sem Bubbi hafði ekki kynnst á ferli sínum til þessa.

Skömmu eftir útkomu Nýrra spora hélt Bubbi til Bandaríkjanna, en sneri þaðan aftur eftir þriggja vikna dvöl. Stuttu síðar setti hann saman nýja hljómsveit og kallaði hana Das Kapital. Í kjölfarið samdi hann svo um útgáfu við Grammið, sem Ásmundur Jónsson stýrði, og eftir nokkrar mannabreytingar hélt Das Kapital í hljóðver þar sem rokkplatan Lili Marlene var hljóðrituð. Platan, sem kom út í október þetta ár, fékk ágæta dóma gagnrýnenda.

Tregafullir textar sem tengdust skilnaði og eftirsjá voru í forgrunni þegar Bubbi hóf upptökur á Konu í byrjun janúar 1985 í hljóðverinu Mjöt, með Tryggva Þór Herbertsson sem upptökustjóra. Samstarf þeirra Bubba og Tryggva var stormasamt og 15. janúar ákváðu þeir að annar tæki við verkinu. Vímuefnaneysla Bubba var líka farin að vera honum til trafala, en hann hafði rænu á að leita liðsinnis vina sinna og að ráði þeirra fór hann í meðferð.

Tómas M. Tómasson tók við plötunni á meðan Bubbi var í meðferðinni. Tómas þekkti vel til Bubba og hafði unnið við plötur hans allt frá árinu 1981. Hann endurhljóðritaði stóran hluta af bassaleik á plötunni, trommuleikur var einnig endurhljóðritaður og Jens Hansson blés saxófón inn á nýjan leik. Eitt af því fáa sem fékk að standa var harmonikkuleikur Guðmundar Ingólfssonar í titillagi plötunnar.

Í mars kom Bubbi svo til leiks á ný og með í farteskinu lög og texta sem orðið höfðu til á Staðarfelli, þar á meðal Rómeó og Júlíu og Systur minna auðmýktu bræðra. Hluti þeirra laga sem Bubbi hafði hljóðritað á fyrstu dögum janúarmánaðar varð því að víkja. Meðal þeirra laga sem sátu eftir má nefna Hvernig hún kyssir mig og Dylan 2 sem einnig hafði verið nefnt Undraland. Þá var einnig tekin ákvörðun um að Bubbi myndi syngja stóran hluta plötunnar inn á aftur.

Við útkomu Konu 6. júní 1985 var hörðum rokkaðdáendum Bubba nokkuð brugðið, enda margir enn með Lili Marlene, plötu Das Kapital, í eyrunum. Gagnrýnendur tóku plötunni hinsvegar mjög vel.

Kona markar upphaf nýrra tíma í textagerð Bubba. Á henni byrjar hann að fikra sig í átt til þess að semja sjálfstæða ljóðræna texta sem staðið gætu án tónlistarinnar, enda hafði áhugi hans á bragfræði og öðrum reglum ljóðlistarinnar vaknað fyrir alvöru. Þó platan hafi verið sögð fyrsta eiginlega dægurlagaplata Bubba má allt eins telja hana fyrstu ljóðaplötu hans og Kona var heilsteyptasta sólóplatan sem Bubbi hafði sent frá sér til þessa. Ekki er hægt að fjalla um þessa plötu án þess að minnast á umslag hennar, sem unnið var af konunni sem sungið er um í mörgum textanna, Ingu Sólveigu Friðjónsdóttur.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin hér að ofan birtist fyrst í innleggi viðhafnarútgáfu plötunnar Kona 2005

ATHUGASEMD: Þegar Bubbi hélt fyrst í hljóðver til að taka upp plötuna Kona í janúar ásamt Tryggva Þór voru með honum vinur hans og fyrrum félagi í Egóinu, bassaleikarinn Þorleifur Guðjónsson og trommarinn Kormákur Geirharðsson, en Bubbi bjó um þær mundir hjá þeim fyrrnefnda.

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK?