| 
Innskrßning

Lagaleit


Grein um ═ upphafi skyldi endirinn sko­a PDF Prenta T÷lvupˇstur

Ferill Utangarðsmanna er einstakur í íslenskri poppsögu. Á aðeins örfáum mánuðum gerðu fimm áður óþekktir tónlistarmenn innrás í musteri íslenskrar dægurlagatónlistar og lögðu þar allt að fótum sér. Bubbi Morthens, Pollockbræðurnir Mike og Danny og Raufarhafnarbúarnir Magnús Stefánsson og Rúnar Erlingsson ruddust fram af krafti og báru með sér andvara nýs tíma. Með hráa rokktónlist að vopni og beinskeytta hvassyrta texta á oddinum brutu þeir leiðina fyrir nýja kynslóð tónlistarmanna. Reiðin sauð í þeim og þeir hjuggu á báða bóga. Það slapp enginn við höggin frá Utangarðsmönnum.

Í fyrstu var á brattann að sækja en Utangarðsmenn héldu ótrauðir áfram. Þeir léku á tónleikum og héldu dansleiki á ólíklegustu stöðum. Helsta vígi þeirra var suðvesturhorn landsins en ekki var látið þar við sitja. Þeir gengu hreint til verks, unnu fyrst í nánum tengslum við farandverkafólk sem fylgdi þeim að málum og léku gúanórokk en með tímanum könnuðu Utangarðsmenn annarskonar takt möguleika og þá helst reggaehrynjandann.

Á hinum stutta ferli sínum afköstuðu Utangarðsmenn ótrúlega miklu. Þeir ferðuðust um landið þvert og endilangt og léku á hátt í 300 tónleikum og dansleikjum. Þeir sömdu feiknin öll af lögum og gerðu stórmerkilega texta á íslenskri sem enskri tungu. Aðeins brot af þessum tónsmíðum voru nokkurn tíma hljóðritaðar. Samt eiga Utangarðsmenn útgáfumetið hér á landi ef miðað er við starfsaldur hljómsveitarinnar. Sólóplötur Bubba Morthens urðu tvær, Utangarðsmenn gáfu út eina breiðskífu, eina fjögurra laga smáskífu og eina sex laga hraðgenga breiðskífu. Mike Pollock er með breiðskífu í handraðanum og Danny bróðir hans með smáskífu í seilingarfjarlægð. Þetta er svo önnur breiðskífa Utangarðsmanna. Hún inniheldur 16 lög þar af 10 lög sem aldrei hafa áður verið þrykkt í plast. Á því rúma ári sem Utangarðsmenn störfuðu gerðust hlutirnir hratt og hinir frjóu hugar fimmmenninganna slógu ekki ætíð í takt enda var samstarfið stundum róstursamt. Ólgan sem Utangarðsmenn komu af stað á meðal allra landsmanna var þó mun stærri og meiri en svo að hún verði rakin hér. Ekki hafa allir verið á eitt sáttir um ágæti Utangarðsmanna. Skýrasta dæmið um þetta eru deilurnar sem fóru fram á meðal menntamanna um textagerð Bubba, í dagblöðum og innan veggja Háskóla Íslands.

Utangarðsmenn voru utan garðs hjá stofnunum Ríkisútvarpsins alla tíð bæði í sjónvarpi og hljóðvarpi. Þessar þunglamalegu stofnanir reyndu að leiða þá eins mikið hjá sér og mögulegt var. Þetta hindraði þó ekki vinsældir hljómsveitarinnar.

Þessi hljómplata er einskonar lokapunktur á starfsferli Utangarðsmanna. Hún inniheldur nokkur af vinsælustu lögum hljómsveitarinnar en þó fyrst og fremst hluta af því geysilega mikla efni sem aldrei hefur verið fest í plast áður. Sum þessara laga fylgdu hljómsveitinni frá upphafi til enda. Þau voru ætíð til staðar á hljómleikadagskránni og eru því kærkomin viðbót í lagasafnið. Önnur lög plötunnar eru til vitnis um frjóa sköpun hljómsveitarinnar.

Reykjavík 6. október 1981
Jónatan Garðarsson
© & ® Jónatan Garðarsson / Skífan

Greinin hér að ofan birtist fyrst á fylgiblaði plötunnar Í upphafi skyldi endirinn skoða 1981

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK?