| 
Innskráning

Lagaleit


Grein um Bláir PDF Prenta Tölvupóstur

„...Ég hef aldrei gert svona plötu áður. Það skemmtilegasta við þessa plötu er að maður er laus við allt stress. Þetta er plata meira ánægjunnar vegna. Mig hefur alltaf langað að prófa þetta form, jass og blús og ég er mjög sáttur við útkomuna...”
(Bubbi, 1988)

Þessi plata, sem hér kemur út undir nýju heiti, er í raun hlutur Bubba af plötunni Bláir draumar sem hann gerði ásamt Megasi haustið 1988. Á þeirri plötu skiptu þeir félagar með sér lögunum og sungu svo þrjú lög saman. Eitt frá hvor öðrum og það þriðja var fengið að láni. Árið 2002 var hluta Megasar á Bláum draumum gerð skil á sérstakri plötu undir heitinu Englaryk í tímaglasi. Hér er svo farið svipaða leið með hlut Bubba. Platan sem út kom rétt fyrir jólin 1988 hafði verið á dagskrá megnið af árinu en Bubbi var með annan fótinn í Svíþjóð við upptökur og frágang plötunnar Serbian Flower mestan hluta ársins, ásamt því að ferðast með sænsku hljómsveitinni Imperiet. Megas var upptekinn við önnur hugðarefni.

Megas opnaði Bubba nýja sýn á íslenska tónlist þegar hann heyrði Megas syngja tónleikaútgáfu af laginu Spáðu í mig í Ríkisútvarpinu. Þetta var sama ár og Bubbi gerðist farandverkamaður eða 1972. Bubbi kynntist Megasi svo á þrítugasta afmælisdegi Megasar, nánar tiltekið þann 7. apríl 1975. Uppfrá því óx og dafnaði sá vinskapur. Allt frá fyrstu kynnum hvatti Megas Bubba til að semja og syngja, gaf honum ráð og leiðbeiningar þegar á þurfti að halda, hann var honum félagi og kennari í senn. Árið 1983 fékk Bubbi svo Megas til að syngja tvö lög inn á plötuna Fingraför. Fatlafól varð smellur og ári síðar má segja að þeir hafi báðir verið komnir á samning hjá Gramm. Bubbi með Das Kapital og Megas í slagtogi með Tolla bróður Bubba og öðrum félögum sem kölluðu sig The Boys from Chicago. Þeir Bubbi og Megas fóru uppfrá því að koma saman fram á tónleikum hvor hjá öðrum með mislöngu millibili en krafan um að þeir ynnu frekar saman varð stöðugt háværari. Þegar þeir svo ákváðu að vinna saman plötu var einnig afráðið að fara aðrar leiðir en þeir voru vanir.Bubbi hafði talsvert verið að gæla við blúsinn, t.d. með Blúshundunum og einnig Vinum Dóra en blúsinn hafði reyndar fylgt Bubba allan ferilinn. Á Bláum draumum laumaði Megas inn djassáhrifum og þessi blanda þeirra félaga kom vel út.

Um svipað leyti og Bláir draumar kom í verslanir, gaf útgáfufyrirtækið Mislur í Svíþjóð út plötu Bubba; Serbian Flower. Þrátt fyrir að Bubbi segðist hafa samið megnið af lögum Blárra drauma sérstaklega fyrir plötuna, voru nokkur þeirra komin við það góðan aldur að líklegra þykir að þau hafi verið hugsuð með Svíþjóðarsamninginn í huga eða ætluð í öðru formi á plötu hér heima. Til dæmis hafði Bubbi flutt Filterlausan kamel blús á styrktartónleikum til byggingar tónleikahúss sem haldnir voru 9. janúar 1988. Upptöku þessa lags er einnig að finna á demóböndum sem tilheyra efni plötunnar 56. Lagið Seinasti dagurinn hafði verið til í mismunandi textaútgáfum allt frá 1986. Vera má að fyrir þessa plötu hafi Bubbi samið Eitt til fimmtán glös sem Bubbi söng inn á band undir heitinu Of mörg glös, og Menn að hnýta snörur sem Bubbi kallaði líka Gjöfin hans Jóns Baldvins og hann flutti í nokkur skipti á uppákomum veturinn 1988. Til að mynda í beinni útsendingu Stöðvar 2 í þætti Jónasar R. Jónssonar, Í góðu skapi, þeim sama og hann söng í lagið Ég bið að heilsa með Hauki frænda sínum. Þeir Megas og Bubbi syngja það lag einnig saman á plötunni en lagið er eftir Inga T. Lárusson við ljóð Jónasar Hallgrímssonar. Meðal þeirra fyrstu til að syngja þetta lag inn á plötu var Guðmunda Elíasdóttir sem söng þetta inn á fyrstu stóru plötuna sem Íslendingur gerði. Það var 10” plata sem kom út árið 1954, sama ár og Tígulkvartettinn söng það inn á litla 75 snúninga plötu og það gerði Barnakór Akureyrar einnig sama ár. Þeir eru því ófáir sem spreytt hafa sig á þessu lagi. Óneitanlega tekst Bubba og Megasi vel upp. Bubbi söng og hljóðritaði þetta lag ásamt lagi Sigfúsar Halldórssonar, Dagný, fyrir kvikmynd Önnu Björnsdóttur en hún bjó þá í Bandaríkjunum. Hún var að vinna að sjónvarpsmyndinni Ástir og stríð sem fjallaði um íslenskar konur sem gifst höfðu hermönnum á stríðsárunum og flust vestur um haf.

Þessi plata verður seint flokkuð sem annað en eitt margra hliðarspora Bubba á ferlinum. En hliðarsporin eru kannski einmitt hluti af þessari sífelldu tónlistarlegu endurnýjun Bubba. Hann gengur aldrei sömu göturnar á tónlistarbrautinni, hann er að leita einhvers á strætum tónlistarinnar. Þessi plata er einskonar hliðargata í bláum og blúsuðum litum.

Bárður Örn Bárðarson
Greinin birtist fyrst í innleggi plötunnar Bláir árið 2006.

 

BMK er aðdáendaklúbbur Bubba Morthens.

Stofnaður 06.06.06
Hvernig gerast menn félagar í BMK?