Ég virðist hafa rambað í gírinn þó svo ég sé farinn að frígíra í frumlegheitum. Allavega. Þessi er handa ykkur.
Sjaldan þessu vant vissi ég ekkert við hverju var að búast á 060616. Það og sú staðreynd að um sögulega tónleika var að ræða, gerði það að verkum að eftirvæntingin var enn meiri en vanalega. Það var fyrirséð að hinir ýmsu tónlistarmenn kæmu fram og tækju lög Bubba. Það varð til þess að hugurinn fór á flug og ég fór að gera mér vonir umm eitthvað einstakt. Mínir villtustu draumar höfðu til dæmis að geyma Megas, Hörð Torfa, Bó,(tek fram að mig dreymir ekki Bó, mér fannst það bara einhvernveginn líklegt, en rangt mat) Geir Ólafs, Kristján Jóhannsson og jafnvel....Utangarðsmenn...not! Hey.....draumar eru klikkaðir, en allavega rættist ekkert af þessu eins og vill verða með drauma. Það sem aftur á móti veruleikinn bauð uppá var sennilega ekki síðra í faglegu samhengi, en sennilega því sögulega.
Ef ég á hoppa milli gestatónlistamannanna mjög óskipulega er mitt mat eftirfarandi. Og ég tek fram að þetta er mat hlutdrægs áhugamanns um tónlist Bubba, ekki hlutlauss fagmanns. Og ég nenni ekki að reyna að rifja upp hver tók hvaða lag. Það hvort sem er voru flest allir þarna sem lesa þetta.
Valdimar: Fær hæstu einkunn hjá mér. Þvílíkur söngvari.....útgeislunin, og bara hann er svo innilega með þetta drengurinn. Toppframmistaða.
Salka Sól: Kom mér verulega á óvart verð ég að segja. Hafði svosem ekkert pælt í henni að ráði en hún er frábær söngkona og tæklaði þetta lag glæsilega.
Alda Dís: Veit ekki alveg hvað skal segja. Svo ég sleppi því. En þetta lag verður bara betra og betra.
Smá útúrdúr. Þegar aðrir taka lög Bubba verð ég stundum barnalega kröfuharður, já og dómharður. Að mínu mati eru þar af leiðandi afar fáir sem gera það virkilega vel og oft finnst mér hreinlega betra að þeir sleppi því alveg. En ég er ekki böðull sem aðeins aflífar. Menn eiga alveg séns þið skiljið og einhverjir hafa hitt á það. En þeir þurfa að gera þetta með allri sálinni og vel það.
Gréta: Hey common....hún er míni Morthens. Orð eru óþörf.
Silja: Það hefði engin getað gert þetta betur. Ekki flókið. Það verður spennandi að sjá næstu ljóðabók. Þessi útgáfa af faðirvorinu...kostuleg. Ég hlakka til.
Gerður Kristný: verð að játa að þarna sónaði stóri maðurinn út. Ég hreinlega yfirgaf samkvæmið um stund. Veit ekki hvað það var. Sennilega konan sem sat við hliðina á mér. Þær geta gert manni þetta, þið skiljið, ef maður gleymir sér. Allavega. Ég hef ekki hugmynd um hvað annars hin ágæta GK var að segja þarna. Sorry.
Agent Fresco: Hvur djöfullinn var þetta eiginlega? Ég held ég hafi sett evrópumet í augnblikkum. Þetta var annaðhvort master, eða crap. Þetta lag!! Er ekkert heilagt? Þeir eru ekki leðurklæddir, strompreykjandi bensínsniffarar árið 1980 sko! Þarf eiginleg að fá að upplifa þetta aftur. Shit! Ok ekki orð um það meir.
Úlfur Úlfur: Ok nú verð ég að vera leiðinlegur. Mér skilst að ég sé mjög góður í því. Nánast eðlislægt. Mér var eiginlega misboðið. Þetta var tær misþyrming. Þarna voru allar alþjóðsamþyktir varðandi pyntingar þverbrotnar. Ég biðla til ÚÚ að halda sig við sitt eigið efni. Það er býsna gott. Afsakið. Ég hef ekkert vit á tónlist. Ég bara verð að fá að fá að koma þessu frá mér. Í seinna laginu skildist því miður ekki orð fyrir utan “Bubbi Morthens”, sem er í sjálfu sér nóg.
Mugison: Þvílíkur höfðingi! Þetta er svo helvíti vinalegt kvikyndi að mann langar að knúsa hann frá öllum hliðum. Frábærlega framkvæmt. Að vísu var salurinn að skíta á sig í viðlaginu. En full-fokking-komið engu að síður.
Ensími: Gerðu það sem þeir gera best. Að rokka Bubba....djók. Alltaf þéttir og flottir. Söngvarinn náði þessu ekki alveg, en hey. Það er bara einn sem gerir það.
Dimma:!!!!! Vá! Tvímælalaust sigurvegararnir af gestaleikurum kvöldsins. Það er bara eitt orð sem kemur uppí hugann. Meiraplísnúnaaaa! Ok Bubbi var að syngja með þeim auðvitað. Kannski pínu ósanngjarnt gagnvart hinum. En það er eiginlega alveg sama. Þeir eru bara bestir í dag og takandi þessi lög með Bubba. Það á enginn séns.
Þesar klippur inná milli úr heimildarmyndinni frá upptökum af Lifið er ljúft kallaði fram margar rykfallnar minningar. Hljóð og mynd voru að vísu á sitthvoru tímabeltinu en engu að síður skemmtilegur vinkill. Eins gömlu myndirnar í bakgrunni á meðan á tónleikunum stóð. Hvað ætli hafi verið teknar margar myndir af Bubba? Óvinnandi rannsóknarefni fyrir einhverfan þráhyggjusjúkling.
Og var þetta ekki gaurinn úr Kaleo sem kom þarna fram í myndskeiði með afmæliskveðju? Alveg töff sko en soldið einmanalegt fannst mér. Fyrst það var byrjað á þessu bjóst ég við kveðjum frá hinum ýmsu hetjum. En þær hafa kannski allar bara verið i salnum. Nú eða þá heima í fýlu og öfundsýkiskasti.
Ég held nú samt að flestir séu búnir að sætta sig við það að fyrsta sætið sé frátekið að eilífu. En maður veit samt aldrei.
Skipulagningin var greinilega mjög vel skipulögð.....ok þetta hljómaði frekar skipulega. En þannig var það einfaldlega. Veit ekki hvað oft var skipt inn og út græjum og rótað í rusl á þessum dásamlegu 200 mínútum.
Ég á eftir að fjalla um afmælisbarnið og hans dyggu meðreiðasveina. Ég er auðvitað í gegnum árin margbúinn að dásama þessa menn og 060616 er bara framlenging á þeirri eilífðarmessu. Aðdáun mín gerir mig vanhæfan til gagnrýni. Einhverjir hnökrar voru, það er það alltaf, hjá öllum. Það er hluti af ævintýrinu og ég hef ekki lagt í vana minn að einblína á þá. Ég er meira fyrir það sem vel er gert og það var djöfull mikið þetta kvöld. Ég get haft skoðun á lagavali á hefðbundnum tónleikum en þetta kvöld var allt rétt og ekkert rangt í þeim efnum. Mig langaði að heyra hitt og mig langaði að heyra þetta, svona eins og gengur. Það er endalaust hægt að velta því í gegnum hausinn. En það sem ég fékk að heyra er nákvæmlega það sem átti að heyrast. Bubbi virkaði í hrikalegu formi og afgreiddi kvöldið á allan hátt eins og honum einum er lagið. Þetta gengi er eins og Volvo 240. Slær ekki feilpúst og rúllar að endamörkum tímans.
Á ég að minnast á Sigga Hlö? Já af hverju ekki. Eru reyndir bransamenn virkilega ekki búnir að fatta Bubba? Þetta er ekki flókið. Bubbi segir það sem honum sýnist, þar sem honum sýnist. Ég skora á SH að fá sér njálgameðal, leysa það upp í volgu merarþvagi og skjóta því in das arschloch með fótknúinni vindsængurpumpu. Ég prufaði það í Þjórsárdal sumarið ´93. Ég notaðist að vísu við niðurmulda camel sígarettu, nefið á mér og Vidda vin til að hoppa á pumpuna. En sjitt hvað það virkaði!
Rúsínan í þessum sverasta og bragðbesta pylsuenda seinni tíma í íslenskri tónlistarsögu var svo afmælisgjöf.....Bubba til okkar. Þessu bjóst ég ekki við, það verð ég að játa. Þegar hann nefndi þetta á tónleikunum, og fávitaglottið gerði andlit mitt að tímabundnum áfangastað sínum, hugsaði ég. Neeee gamli, hvað ertu nú að gera? Það erum við sem eigum að gefa þér. Og svo í anda þess gráðuga, okok hvað skyldi það vera? Bolur eða árituð mynd, og ég leyfði mér meira að segja að vonast eftir 2-4 laga diski. Ó nei aldeilis ekki. Og ég sem er að súrna í allri minni meðalmennsku og tæplega verðskulduðu tilveru, stóð uppi sem sigurvegari þetta kvöld. Ekki af því að ég afrekaði eitthvað, heldur af þvi að ég var heiðraður af þeim sem ég hef heiðrað í 30 ár. Ég tók steinharða, meðvitaða afstöðu. Minnimáttarkenndin skreið vælandi í burtu, ég rétti úr öllum mínum 195cm, spennti út kjúklingabringuna og sigldi í gegnum mannhafið muldrandi inní mér. “Ok þetta hús er fullt af Bubbaaðdáendum sem Bubbi er að endurgjalda fyrir áralanga dygð. Það eiga þetta flestir skilið en enginn, ekki einn einasti helvítis haus, á það jafn mikið skilið og fokking ég. Og hvern andskotann ætlið þið að gera í því!”.
Að venju náði ég ekki að sameina sjálfan mig fyrr en einhverntíman um nóttina og fór þá að uppgötva tónleikana. Þakklætið heltók mig og þessi tilfinning sem bara Bubbi framkallar streymdi um mig.
Aftur þakka ég Bubba og öllum sem að komu fyrir einstaka kvöldstund.
T
|